154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:29]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég bara get ekki keypt að það eigi ekki að sjá til þess að öryrkjar og aldraðir fái þessa kauphækkun sem um var samið. Ég næ ekki af hverju ríkisstjórn eftir ríkisstjórn heldur sig við það sama heygarðshorn að reyna að færa þetta fram til áramóta. Við vitum t.d. að núna um síðustu áramót var uppreiknað til frjálsra fjölmiðla og RÚV og þá var rétt vísitöluupphæð yfir 10%, en á sama tíma skilaði sú upphæð sér ekki til öryrkja eða eldri borgara í almannatryggingakerfinu. Það er alltaf þessi ótrúlegi leikur að tölum einhvern veginn til að ná þeim niður og gefa þessum hópi aldrei neitt fyrr en seinna, alltaf verið að skilja hann út undan. Ég spyr hæstv. ráðherra: Ætlar hann ekki að lemja í borðið og gera kröfu um það núna í eitt skipti að þegar samið er á almennum markaði til fjögurra ára (Forseti hringir.) og fólk á almennum markaði er að fá þessar tekjur þá fái þeir (Forseti hringir.) verst settu í þjóðfélaginu líka þessa hækkun núna strax?