154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:30]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Mig langar að benda á að ég held að núna síðastliðin tvö ár höfum við gripið til hækkana um mitt ár til að sporna gegn kaupmáttarrýrnun þessa hóps. Um síðustu áramót var náttúrlega gert ráð fyrir hækkunum miðað við ákveðna verðbólgu á þessu ári. Það væri áhugavert að fara einfaldlega yfir það hvort þar hafi hlutir gengið eftir eða ekki því að verðbólgan hefur farið aðeins hægar niður en við höfðum gert ráð fyrir. En mig langar að nota síðustu sekúndurnar í að benda á að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin er að grípa til í stuðningspakka sínum við kjarasamningana eru auðvitað líka að nýtast örorkulífeyrisþegum og þá sérstaklega fjölskyldufólki. Húsaleigubætur nýtast öllu lágtekjufólki sem er á leigumarkaði, barnabætur barnafólki og svo nýtast auðvitað skólamáltíðirnar líka barnafólki og eru líklegar til þess að draga einmitt úr fátækt barna.