154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:32]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra stærir sig af einhverri heildarsýn þar sem hann telur ríkisstjórnina hafa náð samkomulagi í málefnum útlendinga. Þar tala ráðherrarnir hins vegar alveg í sitthvora áttina og hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra þar síst í samræmi við raunveruleikann sem við sjáum í þessari fjármálaáætlun. Hann talar um inngildingu og að koma vel fram við fólk á flótta á meðan hæstv. dómsmálaráðherra talar um að loka landamærum, hvað sem það nú þýðir, og gera allt sem við getum til að fæla fólk í burtu. Með öðrum orðum: Senda fólki þau skilaboð að það sé ekki velkomið hér. Orðið inngilding kemur þrisvar fram á þessum 200 blaðsíðum. Talað er um inngildandi skólastarf á bls. 172, gott og vel. Á bls. 165 er talað um aðgengi og aðsókn að menningarstofnunum og áætlanir um að ná utan um áheyrendaþróun menningarstofnana varðandi fjölda áheyrenda, fjölbreytileika og inngildingu. Þriðja og síðasta tilvikið er á bls. 180 þar sem orðið kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti í lok málsgreinar þar sem talað er um aðgerðir sem ganga út á að koma í veg fyrir það með öllum tiltækum ráðum að fólk láti sér detta í hug að leita hingað.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvað hann eigi við þegar hann talar um inngildingu og hvar fjármögnunina í hennar þágu sé að finna í þessari fjármálaáætlun. Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna fjármunum er ekki varið í aðgerðir gegn skaðlegri orðræðu á sama tíma og ríkisstjórnin sjálf er þátttakandi í því að ýta undir skaðlega orðræðu í samfélaginu sem jaðarsetur fólk í þegar viðkvæmri stöðu og vinnur gegn inngildingu fólks sem fær hér þó náðarsamlegast leyfi til að vera. Hvaða aðgerðir ætlar ríkisstjórn Vinstri grænna að fara í til að sporna gegn áhrifum skaðlegrar fyrirætlunar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, en eins og við munum erum við með þrjár ríkisstjórnir í þessu landi?