154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:34]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna og gott að fá tækifæri til að ræða aðeins þá heildarsýn í málefnum útlendinga og innflytjenda sem ríkisstjórnin sammæltist um í febrúar síðastliðnum með einum 20 aðgerðum. Hvað áhrærir fjármálaáætlun og þá heildarsýn sem kynnt var fyrir tveimur mánuðum er alveg ljóst að í fyrsta lagi ríkir auðvitað mikil óvissa um mjög margt sem snýr að fjármögnun þessa málaflokks, þ.e. hversu mikið umsækjendur um alþjóðlega vernd munu kosta ríkissjóð, hversu miklum fjármunum verður varið í móttöku. Það fer ekki síst eftir því hversu langur málsmeðferðartíminn er því að eftir því sem hann er lengri, þeim mun lengur er fólki í úrræðum Vinnumálastofnunar. Þess vegna er ein lykilaðgerðin að reyna að draga úr þessum málsmeðferðartíma og þar með að fólk sé skemur inni í kerfinu hjá okkur og þar með kostnaðurinn minni. En það er vissulega verið að stíga mikilvæg skref með þessari fjármálaáætlun í átt að inngildingu og hv. þingmaður nefndi hér skólana. Á öllum skólastigum erum við að stefna að því að ráðast í aðgerðir sem munu aðstoða kennara við að taka vel á móti börnum innflytjenda. Á sama hátt erum við að horfa á íslenskukennslu og þar höfum við verið að stíga skref í ráðuneytinu hjá mér t.d. með starfstengda íslensku, að reyna að efla hana, sem skiptir miklu máli, og þar fram eftir götunum. Þannig að við erum að stíga mikilvæg skref í þessa átt. En augljóslega, það er ágætt að taka það fram, er mikil óvissa um í rauninni hvað kerfið mun kosta okkur. Það fer alltaf eftir því (Forseti hringir.) hvernig gengur að ná málsmeðferðartíma niður og fer alltaf eftir því hversu margt fólk mun sækja hér um alþjóðlega vernd.