154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:36]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Í seinna andsvari langar mig að fara í allt aðra sálma. Hér fyrir nokkrum árum varð uppi fótur og fit þegar í ráðhúsi Reykjavíkurborgar stóð til að taka af kynmerkingar salerna, eitthvað sem ætti að vera sjálfsögð ákvörðun og undir borgaryfirvöldum komið. En nei, annað kom á daginn. Í reglum um húsnæði vinnustaða er það nefnilega ekki leyfilegt, því að klósett skulu jú vera kyngreind. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé löngu tímabært að fara í vinnu við að endurskoða þessar reglur og geta þannig boðið vinnustöðum upp á það sjálfsagða frelsi að mæta sínu starfsfólki með svona einfaldar þarfir. Og að þegar Alþingi byggir hús þá sé skautað yfir þessar reglur og í Smiðju, nýju húsi Alþingis, séu einhverra hluta vegna bara karlaklósett. Ef Alþingi sjálft tekur ekki mark á þessum reglum, því er ekki löngu búið að endurskoða þær og aðrar sambærilegar reglur? Hyggst ráðherrann setja í þetta fjármagn á næsta ári?