154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:39]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Það er svo sem búið að koma inn á margt en mig langaði aðeins að ræða þessa skýrslu um fátækt sem við ræddum reyndar sérstaklega hér á þinginu. Þar eru nokkrir hópar teknir út og við þekkjum orðið betur þessa hópa sem gefur okkur tækifæri til að bregðast betur við og koma til móts við þá. Einn af þeim hópum er, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, innflytjendur og ráðherra hefur ásamt öðrum ráðherrum í ríkisstjórninni komið á ákveðnum ráðherrahópi um málefni útlendinga og innflytjenda, bæði varðandi hælisumsóknir en líka skólakerfið og svo þá þjónustu sem er m.a. á sviði hæstv. ráðherra. Mig langaði að spyrja hann aðeins út í þetta því að ég held að hér þurfum við að hafa ákveðið „slagplan“ um það hvernig við tryggjum það að allir sem hingað flytja og vilja búa á Íslandi verði raunverulegir þátttakendur í íslensku samfélagi og upplifi sig sem hluta af samfélaginu okkar, því það er mikilvægt. Við sjáum alveg ofboðslega daprar niðurstöður í PISA þegar kemur til að mynda að líðan barna af erlendum uppruna. Við höfum státað okkur af því að börnunum okkar líði almennt betur en börnum annars staðar á hinum Norðurlöndunum samkvæmt PISA en við sjáum þarna að börn innflytjenda finna sig ekki í íslenskum skólum og íslensku skólasamfélagi. Það kallar á aðgerðir og það kallar á aðgerðir hjá okkur strax að bregðast við því. Mig langaði að fá hæstv. ráðherra til að fara aðeins yfir hans sýn á þennan málaflokk. Hvernig getum við brugðist við til að tryggja að þeir sem hingað flytja og vilja vera þátttakendur í okkar samfélagi séu það raunverulega og upplifi sig sem hluti af samfélaginu og að allir hafi sömu tækifæri í fallega góða samfélaginu okkar á Íslandi?