154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:41]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hún kemur inn á skýrslu forsætisráðherra frá því í fyrra um fátækt og nefnir sérstaklega innflytjendur sem ég tek undir að við eigum að taka vel á móti. Við erum að horfa upp á í íslensku samfélagi núna aukna stéttskiptingu sem má m.a. rekja til þess að það hallar á innflytjendur, allt frá því að börn innflytjenda taka þátt í skólastarfi og þar til þau verða fullorðnir einstaklingar. Þess vegna var nú m.a. ráðist í þá heildarsýn sem ríkisstjórnin sammæltist um, vegna þess að okkur þótti mikilvægt að takast á við akkúrat þetta viðfangsefni, að draga úr stéttaskiptingu í íslensku samfélagi og búa til sömu eða jöfn tækifæri fyrir fólk, líkt og hv. þingmaður nefnir hérna, þannig að það upplifi sig betur sem hluta af samfélaginu. Við megum ekki gleyma því í þessari umræðu að innflytjendur, sem eru tæp 20% af landsmönnum, eru mjög mikilvægur hópur sem stendur undir hagvexti hérna, bæði vegna þess að þau vinna störf í ferðaþjónustu, í byggingariðnaði, fiski og fleiri greinum sem skiptir gríðarlega miklu máli. Með þeirri heildarsýn sem við lögðum fram og þeim aðgerðum sem þar koma fram, ásamt fjármálaáætlun sem nú er komin fram, erum við að stíga mikilvæg skref sem snúa einmitt að inngildingu innflytjenda til að gera þeim betur kleift að vera virkir þátttakendur í íslensku samfélagi.