154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:44]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Herra forseti. Fyrir utan húsið eru Grindvíkingar komnir til að benda okkur á þá stöðu sem þeir eru að upplifa frá degi til dags og þá örvinglan sem hefur gripið mörg þeirra sem hafa verið að missa allt sitt. Mig langar því að ræða aðeins við hæstv. félagsmálaráðherra, sem jafnframt er formaður síns stjórnmálaflokks og ber þar af leiðandi ábyrgð á fjármálaáætlun eins og formenn hinna tveggja flokkanna, um stöðuna. Við erum búin að vera að hitta Grindvíkinga, ekki einn heldur marga sem eru komnir í mjög erfið mál. Hér var verið að samþykkja frumvörp um uppkaup á íbúðum fyrir góðum tíma síðan. Það hefur lítið gengið. Þar voru líka ákveðnir hópar skildir eftir sem fá ekkert bætt. Við erum búin að hitta forsvarsmenn smærri fyrirtækja í Grindavík þar sem þau hafa verið að óska eftir flutningsstyrkjum til að færa fyrirtæki sín. Þau hafa verið að óska eftir uppkaupum á húsnæði sem stendur ónotað og hefur ekki verið hægt að nýta í fimm mánuði. Þau eru að óska eftir uppkaupum á því svo þau geti hafið starfsemi annars staðar og farið að skapa verðmæti á öðrum stöðum. Við erum búin að vera að ræða þetta í fimm mánuði, frá því að þessir atburðir áttu sér stað. Við erum núna að sjá fólk hreinlega keyrast út. Margir hverjir keyptu á yfirverði á sínum tíma í þenslu í Grindavík. Fasteignamatið var talsvert hærra en brunabótamatið þannig að fólk er að tapa milljónum á því að selja og reyna að koma sér inn á markað sem er dýrari heldur en markaðurinn var í Grindavík. (Forseti hringir.) Ég velti fyrir mér, og kannski bara vegna þess að Grindvíkingar eru komnir núna til að heimsækja okkur hér: Hvar standa þessi mál? Erum við að gera eitthvað núna og sést þess stað í þessari fjármálaáætlun að við séum að gera eitthvað?