154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:46]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir spurninguna og umræðuna og fyrir að taka þetta málefni upp sem ég held að sé bara mjög vel við hæfi. Ríkisstjórnin hefur gripið til fjölmargra aðgerða þegar kemur að málefnum Grindvíkinga og ég átta mig alveg á því að fólk í Grindavík eða frá Grindavík hefur ekki átt alla daga sæla frá því að þessir atburðir byrjuðu. Ég vil benda á að í fjármálaáætlun, af því að hv. þingmaður spyr um tengslin við fjármálaáætlun, er rammagrein á bls. 38 til 41, eða 42, 43, akkúrat um fjármögnun útgjalda vegna jarðhræringa við Grindavík. Það er ágætistafla á bls. 39 þar sem áætlaður heildarkostnaður við það sem ráðist hefur verið í eða er í bígerð er 54 milljarðar kr. og gjaldfærður kostnaðinn hingað til 8. Þarna er fjöldi aðgerða; það er sérstakur húsnæðisstuðningur, tímabundinn stuðningur til launagreiðslna, tímabundinn rekstrarstuðningur, vaxtaniðurgreiðslur við kaup á húsnæði í gegnum leigufélagið Bríeti og auðvitað byggingar varnargarða, almannavarnir, Vegagerðin, Veðurstofan o.fl. og síðan framlag ríkissjóðs til eignarhaldsfélagsins Þórkötlu. Ég hef þær upplýsingar að það sé líklegt til að fara að ganga hraðar þar. Við sáum fréttir í dag um að það væri búið að ganga frá einum 126 kaupum, ef ég skildi þetta rétt. Ég skil óþolinmæðina að sjálfsögðu en ég veit til þess að það er verið að reyna að vinna þessi mál bæði af öryggi og festu en á sama tíma eins hratt og mögulegt er (Forseti hringir.) og efast ekki um að hér séu öll að leggja sig fram við það verkefni.