154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:48]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegi forseti. Já, í fjármálaáætlun er að finna ákveðna hluti. Stór hluti af því er í raun og veru færður inn á efnahagsreikning sem fjárfesting þó að það gæti orðið sokkinn kostnaður seinna meir ef allt fer á versta veg í Grindavík. Ef hlutirnir lagast verða þetta ekki útgjöld fyrir ríkissjóð á seinni stigum. Það sem er inni í fjármálaáætluninni hugsað í rekstur eru þá þessir 8 milljarðar, en þeir duga bara ekki til. Við erum að sjá að litlu þjónustufyrirtækjunum er að blæða út. Þau voru að þjónusta fólk sem er ekki á staðnum lengur þannig að þeim er að blæða út. Sveitarfélögin í kringum Grindavík eru af veikum mætti að þjónusta þá íbúa sem hafa þurft að flýja svæðið sitt og það kemur ekki framlag frá ríkinu. Það er verið að þjónusta litlu börnin á leikskólanum, þjónusta börnin í skólunum. Það er verið að slást um íbúðir og farið að borga yfirverð á íbúðum og þess sést ekki stað (Forseti hringir.) að ríkisstjórnin sé að koma til móts við það ástand (Forseti hringir.) sem er að skapast á Suðurnesjum vegna þessa. Ég spyr um framlagið til þeirra sveitarfélaga sem hafa (Forseti hringir.) tekið að sér að þjónusta íbúana sem hafa þurft að flýja heimili sitt og gera það án endurgjalds.