154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:50]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni umræðuna um þetta mál. Ég held að við megum í fyrsta lagi ekki gleyma því að hér er náttúrlega um algjörlega fordæmalausar aðstæður að ræða. Það er ánægjulegt að hafa séð hvernig þingheimur hefur staðið saman í því að afgreiða fjöldamörg mál hér á þingi sem hafa einmitt verið til stuðnings við fólk og fyrirtæki í Grindavík. Það þýðir ekki að við séum búin að leysa þessi mál að fullu, að sjálfsögðu ekki, og þar skiptir kannski einna mestu máli að horfa til húsnæðismálanna. Það er enn þá of stór hópur fólks, og auðvitað á það ekki að vera neinn, sem býr við óviðunandi húsnæðisaðstæður og það er verið að vinna í þeim málum. Síðan vil ég bara segja af því að hv. þingmaður segist að þess sjái ekki stað að hér sé um fjárframlög að ræða að þess sést auðvitað stað í þeirri staðreynd að við höfum lagt hér á þingi fram frumvarp til fjáraukalaga (Forseti hringir.) og meiningin er að halda því áfram eftir þörfum einmitt til að styðja sérstaklega við Grindavík.