154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:52]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við fjármálaáætlun áranna 2025–2029 og hér og nú erum við sérstaklega að horfa til og ræða þau verkefni og málefnasvið sem hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra fer með. Ég hef skautað yfir stefnumótun málefnasviða á verkefnasviði ráðherra en verkefnin dreifast á mörg númer og þar er margt sem gefur tilefni til umræðu hér í þingsal. Mig langar sérstaklega að staldra við málefni sem snúa að þjónustu við aldraða eins og sveigjanleg starfslok og verkefnið Gott að eldast og biðja hæstv. ráðherra að fara yfir hvernig fjármálaáætlunin styður við þessi verkefni og hverjir helstu mælikvarðar á árangur eru. Þá langar mig að koma inn á þær aðgerðir sem snúa sérstaklega að Grindavík og hafa komið til umfjöllunar í velferðarnefnd og tengjast verkefnum hæstv. ráðherra, en það eru m.a. vinnumarkaðsaðgerðir og stuðningur við launagreiðslur. Getur ráðherra upplýst mig um framvindu þess verkefnis og hvernig fylgst hefur verið með því?

Þá langar mig aðeins að koma að verkefnum sem snúa að þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, en ég held ég geymi það til seinni ræðu og læt þetta duga að sinni.