154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:54]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ef ég byrja á því sem snýr að mínu málefnasviði sem viðbrögð við náttúruhamförunum á Reykjanesskaga þá er það sem snýr að mér og mínu ráðuneyti launagreiðslur eða aðstoð við greiðslu launa fyrirtækja fyrir fólk sem getur ekki stundað vinnu í Grindavík. Áætlaður kostnaður vegna þess hefur verið metinn á rúma 9 milljarða. Raunkostnaður hingað til er um 2,3 milljarðar en þar með er ekki öll sagan sögð vegna þess að fyrirtækin og einstaklingarnir geta enn þá sótt um aftur í tímann. Það fer auðvitað eftir því hversu mörg fyrirtæki geta verið með fólk í vinnu og í hve langan tíma þau geta verið með fólk í vinnu og þar fram eftir götunum hvernig þessar upphæðir geta mögulega breyst. En það er alla vega gert ráð fyrir því að þetta gætu orðið, miðað við gildistíma þeirra laga sem hér voru samþykkt á Alþingi, rúmir 9 milljarðar.

Varðandi þjónustu við eldra fólk og verkefnið Gott að eldast þá gengur það verkefni mjög vel. Það eru nokkur tilraunaverkefni í gangi úti um allt land þar sem ein 22 sveitarfélög taka þátt og nokkuð margar heilbrigðisstofnanir. Við erum með fjármagn frá og með næsta ári í þetta verkefni, kemur úr almennu útgjaldasvigrúmi ráðuneytisins núna í ár en á næsta ári og þarnæsta ári eru að koma inn til ráðuneytisins hjá mér 200–250 millj. kr. sem verður varið í það (Forseti hringir.) að vinna samkvæmt þeirri aðgerðaáætlun sem samþykkt var hér á þingi í fyrra.