154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:56]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það sem mig langaði að koma inn á varðandi þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd er texti í þessu fylgiskjali um stefnumótun málefnasviða þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þegar kemur að þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd er brýn nauðsyn að byggja upp búsetu og þjónustu á færri svæðum og veita þjónustu í þjónustukjörnum sem sniðnir eru að þörfum notenda og þjónustuveitenda með það að markmiði að draga úr kostnaði og auka gæði þjónustunnar.“

Svo heldur þessi texti áfram. Það sem ég er að velta fyrir mér er hvort í raun sé verið að binda þessa þjónustu einhvern veginn við höfuðborgarsvæðið. Er einhver hugsun að dreifa þessu í mismunandi landshluta eða bara jafnvel einhvern einn stað, eitt sveitarfélag? Hvað liggur þarna að baki?