154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:57]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Hugmyndin þarna er í raun að geta með skilvirkari, hagkvæmari og eiginlega manneskjulegri hætti tekið á móti fólki þar sem það er í kjörnum. Kannski er upptakturinn að þessu svolítið það sem við höfum komið á í Reykjanesbæ, í Offiseraklúbbnum gamla, þar sem við horfum til þess að taka á móti sérstaklega börnum en líka fullorðnum í margvíslega virkni og að slíkir þjónustukjarnar, þar sem fólkið býr nálægt, geti þjónustað fólk betur. Hingað til hefur dreifingin á móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd verið langmest í kringum höfuðborgarsvæðið, í Reykjanesbæ sérstaklega, Hafnarfirði og Reykjavík. (Forseti hringir.) Við erum opin fyrir því að þjónustukjarnar sem þessir geti verið dreifðir um landið en það fer allt saman talsvert mikið eftir áhuga sveitarfélaganna á að taka þátt í verkefnum sem þessum.