154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[10:41]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Varðandi fyrsta hluta spurningarinnar, um samgöngusáttmálann, þá er viðræðuhópur ríkis og sveitarfélaga að vinna að endurskoðun en eftir mínum heimildum er vinnan komin mjög langt á veg. Ég hef lagt mikla áherslu á að flýta þessu. Ég tel að þetta sé mikilvægt umhverfismál, mikilvægt kjaramál og mikilvægt mál fyrir þróun höfuðborgarsvæðisins í átt að nútímalegu þéttbýlissvæði. Vinnan hefur auðvitað verið mjög umfangsmikil og ýmis atriði sem áður höfðu ekki verið útkljáð hafa verið leidd til lykta. Vonir standa til þess að endurskoðun ljúki fljótlega en áður verður að klára mikilvæg mál sem eru til að mynda framkvæmdaáætlun með tilliti til niðurstöðu fjármálaáætlunar. Fjármögnun sáttmálans er skilgreind í upprunalegum samgöngusáttmála og er enn unnið út frá þeim forsendum. Bein framlög frá ríki og sveitarfélögum, ábati af sölu og þróun Keldnalands ásamt því að í upprunalegum sáttmála var gengið út frá því að hafin yrði innheimta flýti- og umferðargjalda af umferð innan höfuðborgarsvæðisins. Sú gjaldtaka hefur, eins og þingheimi er væntanlega ljóst, ekki hafist enn. En mótunin er í gangi og er unnin á vettvangi verkefnisstofu um tekjuöflun af umferð sem er að skoða enn fleiri atriði.

Varðandi almenningssamgöngurnar er að störfum starfshópur um endurskoðun á aðkomu ríkisins að almenningssamgöngum, sem er líka forgangsmál hjá mér og áherslumál. Loks er skýrslu um Hvassahraun að vænta á næstu vikum eftir því sem mitt ráðuneyti hefur upplýst mig um. Þau sem að greiningunni standa hafa boðist til að koma í næstu eða þarnæstu viku með kynningu á þeim niðurstöðum og skýrslan kæmi síðan í kjölfarið.