154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[10:55]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Eins og fram kemur í spurningu hv. þingmanns þá er það rétt að stefnt er að því að styðja við byggingu allt að 1.000 hagkvæmra íbúða á ári. Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að framlög til stofnframlaga verði 31,6 milljarðar kr. á tímabilinu og að boðið verði upp á hlutdeildarlán til að styðja við fyrstu kaupendur. Þrjú sveitarfélög hafa svo undirritað sérstakt samkomulag á grundvelli rammasamnings ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu húsnæðis og þar verður að gera betur, fleiri sveitarfélög þurfa að koma að því og taka þátt í uppbyggingunni. Liður í því að uppbyggingin gangi eftir er auðvitað að ná niður verðbólguvöxtum þar sem það skiptir uppbyggingaraðilar líka miklu máli, sérstaklega þá sem eru að byggja leiguíbúðir til langs tíma, að þeir geti auk stofnframlaga fengið lánsfjármögnun á ásættanlegum kjörum. Þetta er hangir því allt saman, eins og hv. þingmaður bendir á. Það er því talsverðri óvissu háð hvort það náist hreinlega að úthluta öllu því fjármagni sem er til ráðstöfunar þar sem markaðsaðstæður ráða miklu um það hversu miklar framkvæmdir stofnframlagshafar treysta sér síðan í.

Við þurfum að átta okkur á því að þetta eru í raun og veru viðfangsefni sem hanga saman. Ríkið hefur náð að gera rammasamkomulag við Reykjavíkurborg sem hefur af myndarskap komið að þeirri áætlun. Önnur sveitarfélög hafa gert það í takmarkaðri mæli, Mýrdalshreppur annars vegar og Húnaþing vestra hins vegar. Ég vænti þess að fleiri sveitarfélög komi þarna um borð vegna þess að það þarf sannarlega að gera betur á framboðshliðinni í því að sinna þessum mikilvæga þætti, ekki bara í uppbyggingu samfélags heldur líka í stjórnun efnahagsmála.