154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:02]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Þetta var bæði umfangsmikil og fjölbreytt fyrirspurn. Ég treysti því að hv. þingmaður haldi þessum punktum til haga svo að við getum botnað þá með öðrum hætti ef mér endist ekki tími til að klára það allt hér. Það eru nokkur atriði sem ég vil tala um sem varða stóru myndina. Það er alveg ljóst að þetta samspil hagstjórnar og húsnæðismarkaðar er mjög mikilvægt. En á sama tíma og við viljum ekki að hitinn á hagkerfinu sé umfram getu viljum við heldur ekki að það hlaðist upp í óútfyllta íbúðaþörf. Þessu jafnvægi er ekkert einfalt að ná, hvorki hér né annars staðar, þetta er viðfangsefnið. Húsnæðisverð hefur, ef við horfum á löndin í kringum okkur, bæði austan hafs og vestan, hækkað mjög í kjölfar heimsfaraldurs og uppbygging hefur hægt á sér vegna vaxta og það er ekki séríslenskt viðfangsefni.

Það er hins vegar góð staða að landsmönnum fjölgar. Samkvæmt spám Hagstofu mun landsmönnum fjölga um 90.000 á næsta áratug og það þýðir að það þarf sannarlega að byggja mikið á þessum tíma. Samkvæmt spám Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar þarf að byggja 45.000 íbúðir. Þetta eru auðvitað bara einhverjar heildartölur til að setja þetta í aðeins stærra samhengi en þetta þýðir að við þurfum að byggja sem nemur Kópavogi og Garðabæ á næstu fimm árum, bara svona til að við áttum okkur á umfanginu, og gera það svo aftur fimm árum eftir það. Ísland er kröftugt samfélag sem er að vaxa og við getum þetta. En við þurfum sannarlega, eins og hv. þingmaður bendir á, að hafa augun opin gagnvart öllum valkostunum og þess vegna hef ég miklar væntingar til húsnæðisstefnu og aðgerðaáætlana byggðra á henni.

Eins og ég kom að í fyrra svari mínu undir þessum lið þá er svarið ekki bara eitt heldur mjög mörg. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að leggja sínar hugmyndir hér á vogarskálarnar.