154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:05]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég heyri að við hv. þingmaður erum sammála í grundvallaratriðum sem lýtur að mikilvægi þess að efla almenningssamgöngur og auka fjölbreytni í ferðamáta til þess bæði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en ekki síður að bæta lífsgæði íbúa. Það var veitt aukafjárveiting til Strætó vegna Covid en það er rétt að framlög hafa ekki hækkað í samræmi við verðlag. Aðkoma ríkisins að almenningssamgöngum, hvað varðar rekstrarframlag, hefur verið til umræðu og þau samskipti hafa verið í gangi.

Almennt vegna fyrri fyrirspurnar hv. þingmanns vil ég segja að heildaryfirbragð fjármálaáætlunar er auðvitað það að freista þess að draga úr verðbólgu með ábyrgum ríkisfjármálum, það er stóra verkefnið, ekki síst til að skapa betri skilyrði fyrir uppbyggingu. Þessi jafnvægislist verður að einkennast af ábyrgð.