154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:43]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi vil ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Varðandi ábendingu þingmannsins um ósamræmi í tölum vil ég segja: Þetta er eitthvað fyrir ráðuneytið til að skoða. Ég er ekki með neitt fyrir framan mig til að leggja mat á það hverju sætir eða hvor talan sé réttari eða hvað. En ég get í raun tekið undir allt sem hv. þingmaður segir. Árangur í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum er alger lykilþáttur í baráttunni gegn loftslagsvánni og það er alveg ljóst að við munum ekki ná markmiðum í loftslagsmálum nema við drögum verulega úr losun í umferð. Borgarlína er þar alger forsenda. Ég tel að við þurfum að leggja vaxandi áherslu á almenningssamgöngur og þann lífsstíl að við getum bæði unnið og notið samvista við vini og vandamenn án þess að þurfa að reiða okkur á einkabílinn. Ég held að það skipti mjög miklu máli, ekki vegna þess að það sé fórn heldur vegna þess að það leiði okkur inn í betra, blómlegra og skemmtilegra samfélag. Orkuskiptin skipta miklu máli en almenningssamgöngurnar eru líka alger lykilþáttur, ég er sammála hv. þingmanni um það.

Mig langar kannski líka að bæta því inn að við höfum horfið frá því sem var miklu meira tíðkað hér áður fyrr, sem eru vöruflutningar á sjó. Við erum nánast með alla þungaflutninga á landi, sem er bæði aukið álag á vegina en ekki síður mjög stórt loftslagsmál. (Forseti hringir.) Vegalengdir á landi eru oftar en ekki miklu lengri en vegalengdir á sjó.