154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:46]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Svo er það náttúrlega annað varðandi markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda: Ef við berum saman stöðuna 2016 og nýjustu tölurnar 2022 hefur losun frá vegasamgöngum aukist. Hún tók dýfu í Covid en hefur aukist öll síðustu ár. Mig langar að spyrja ráðherrann: Er eitthvað í þessari áætlun sem snýr þeirri þróun við? Tölurnar eru bara að stefna í vitlausa átt. Ekki nóg með að markmiðin gangi ekki nógu langt heldur er ekkert sem bendir til þess að við séum að stefna í átt að þeim.

Varðandi aukið framlag til betri samgangna, sem er nefnt í áætluninni, langar mig að spyrja: Er þetta raunverulegt aukið umfang verkefnisins eða er þetta bókhaldsfærsla til að koma til móts við að ekki hefur náðst að semja um flýtigjöld? Svo langar mig bara að vekja athygli ráðherrans á frábærum umsögnum sem komu inn við samgönguáætlun frá ungmennaráði Akureyrarbæjar og ráðgjafarhópi umboðsmanns barna um almenningssamgöngur. Það sem þau segja í grunninn er: (Forseti hringir.) Ríki og sveitarfélög mega ekki karpa um fjármögnun á grunninnviðum sem ungmennum eru nauðsynlegir til að geta notið samfélagsins til fulls. (Forseti hringir.) Þá erum við að tala um almenningssamgöngur innan svæða og milli landshluta. Við verðum að gera betur strax.