154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:48]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Að hluta til erum við að tala um aukningu á losun í umferð vegna vaxtar í ferðaþjónustu; þetta er eitthvað sem spilar alltaf saman. Mér er minnisstætt eftir efnahagshrunið þegar við náðum verulegum árangri í loftslagsmálum, fyrst og fremst vegna þess að hagkerfið dróst saman. Það er bara þannig að umfang og hagvöxtur hefur tilhneigingu til að standa í beinu sambandi við losun gróðurhúsalofttegunda. Við þurfum að horfa til þess að ekki er allur vöxtur til góðs og allra síst hagvöxtur; hann þarf að vera metinn og greindur í því samhengi að hann valdi ekki óþarfa aukaálagi á náttúru og umhverfi.

Hv. þingmaður nefnir hér ádrepu og hvatningu ungmennaráðs. Ég var þarna líka og heyrði í þeim þegar þau töluðu um að ríki og sveitarfélög mættu ekki karpa um almenningssamgöngur. En þar verða líka báðir aðilar að axla sína ábyrgð.