154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:51]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Mér er kunnugt um að forveri minn í embætti lagði áherslu á og taldi mikilvægt að samræma þessa gjaldtöku sveitarfélaganna sem tengdust innviðum og lóðum. Samtök atvinnulífsins hafa kallað eftir þessu og það þarf auðvitað að samræma regluverk. Ákvörðunin er eftir sem áður ákvörðun sveitarfélaganna, það liggur fyrir. Þau hafa ákveðið sjálf hvernig þau leggja þessi gjöld á og það er engin sérstök umgjörð sem er miðlæg eða sem er til um þetta. Það er hins vegar verið að safna upplýsingum frá sveitarfélögum um framkvæmdina vegna þess ákalls sem kemur fram í spurningu hv. þingmanns, um samræmingu og skýrari reglur. Mér er sagt í mínu ráðuneyti að þetta komi vonandi til kasta þingsins á næsta ári þegar upplýsingarnar liggja betur fyrir. En þetta eru auðvitað að sumu leyti mismunandi aðstæður.

Mig langar líka að geta þess, af því að hv. þingmaður nefnir þetta líka í samhengi við uppbyggingaráform og í hvaða röð hlutirnir gerast og hvenær tekjurnar koma inn og hvenær innviðirnir geta orðið til o.s.frv., að mér er kunnugt um að þetta er gert með alveg ótrúlega mismunandi hætti í löndunum í kringum okkur. Sums staðar er það þannig að innviðir eru orðnir traustir og öruggir þegar bygging íbúðarhúsa hefst; þá erum við bæði komin með biðstöð fyrir almenningssamgöngur og aðra innviði áður en byggingin hefst til þess að geta tryggt að hverfið fari í gang af fullum krafti strax. Þetta snýst auðvitað líka, eins og hv. þingmaður nefnir, um meiri fyrirsjáanleika varðandi kostnað við uppbyggingu sem er líka mikið umhugsunarefni í þessu samhengi öllu þegar við erum í þessum línudansi með uppbyggingu húsnæðis á landsvísu og samspil við efnahagsmálin.

Stutta svarið við spurningu hv. þingmanns er: Já, það er verið að skoða þetta og markmiðið er að leggja til einhver sjónarmið eða einhverjar útlínur sem gætu orðið leiðbeinandi fyrir sveitarfélögin.