154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:06]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti! Undir mig og mitt ráðuneyti heyra tvö málefnasvið, málefnasvið 15 um orkumál og málefnasvið 17 um umhverfismál.

Hvað snertir málefnasvið um orkumál er ljóst að megináhersla ráðuneytisins til næstu fimm ára mun snúast um þrennt; aukna orkuöflun, orkuskipti og skilvirkan raforkumarkað. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að bregðast við þessum áskorunum með því að leggja til 500 millj. kr. hækkun árlegra útgjaldaheimilda til orkumála og orkuskipta. Fjármagn til orkuskipta hefur verið umtalsvert á undanförnum árum og var í formi skattalegra ívilnana til kaupa á hreinorkuökutækjum. Námu þessar ívilnanir um 13 milljörðum kr. árið 2023. Frá og með 2024 var ákveðið að hætta slíkum ívilnunum og flytja fjármagn af tekjuhlið yfir á gjaldahlið og veit beina styrki til kaupa á slíkum ökutækjum í gegnum Orkusjóð. Þannig nema fjárheimildir á þessu ári og því næsta 7,5 milljörðum kr. og lækka síðan í 5 milljarða kr. á ári frá og með 2026. Af þessu er ljóst að fjármagn til orkuskipta er að lækka.

Hvað orkumál almennt varðar er mikilvægt að minnast á að mikið starf hefur þegar verið unnið eða er í vinnslu er snúa að forsendum aukinnar orkuöflunar. Þannig hefur 3. rammaáætlun verið afgreidd, sú 4. er á lokametrum og sú 5. í vinnslu sem mun gefa af sér allmarga virkjunarkosti í nýtingarflokk. Einnig er svokallað aflaukningarfrumvarp orðið að lögum sem gefur kost á 300–500 MW aflaukningu virkjana á næstu árum. Unnið er að regluverki og frumvarpi um vindorku, regluverki um rammaáætlun, regluverki í tengslum við raforkumarkað, aukið raforkueftirlit, aukið raforkuöryggi, leiðir til að jafna orkukostnað á landsvísu, uppfærslu jarðvarmamats sem og ýmsum öðrum verkefnum er miðað að því að einfalda ferla og að ýmislegu öðru regluverki hvað orkumál varðar. Einnig er í sífelldri skoðun nýting fjármuna úr Orkusjóði til verkefna sem skili hvað mestum árangri til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vinna þannig að markmiðum og skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum.

Hvað snertir umhverfismál og minjavernd snýst megináhersla ráðuneytisins um fernt; eflingu loftslagsaðgerða og aðlögunar vegna áhrifa loftslagsbreytinga; vernd íslenskrar náttúru, líffræðilega fjölbreytni og menningarminjar, eflingu forvarna vegna náttúruvár og eflingu hringrásarhagkerfisins og umhverfisgæða. Hvað öll þessi áhersluatriði snertir verður samhliða lögð áhersla á eflingu vöktunar og rannsókna á þessum sviðum sem undirstöðu upplýstrar ákvarðanatöku.

Ef frá eru taldar breytingar á framsetningu útgjaldaheimilda hvað snertir ráðstöfun losunarheimilda í flugi og auknar sértekjur Endurvinnslunnar og Úrvinnslusjóðs munu raunfjárheimildir málefnasviðsins fara hækkandi. Fyrst má nefna að gert er ráð fyrir að fjárheimildir hækki tímabundið um 500 millj. kr. til átaks við gerð hættu- og áhættumats vegna eldgosa og annarrar jarðrænnar náttúruvár á Reykjanesskaga. Einnig koma til 1.500 millj. kr. tímabundnar hækkanir fjárheimilda til styrkingar mannvirkjagerðar vegna ofanflóða samkvæmt eldri fjármálaáætlun, 238 millj. kr. almenn aukin útgjaldaheimild og 85 millj. kr. aukning til náttúrumiðaðra loftslagsmála. Að lokum er gert ráð fyrir að sértekjur stofnana muni aukast um allt að 550 millj. kr. er skýrist af fjölgun ferðamanna og aukinni gjaldtöku sem nýtist til bættrar þjónustu og kemur það til viðbótar ríflega 600 millj. kr. tekjuaukningu á árunum eftir Covid. Á móti falla niður nokkrar fjárheimildir á tímabilinu og vegur þar þyngst 600 millj. kr. tímabundin fjárheimild til grænna fjárfestinga í loftslagmálum.

Hvað umhverfismál og minjavernd almennt varðar er mikilvægt að minnast á að mikið starf hefur þegar verið unnið eða er í vinnslu er snýr að áherslum ráðuneytisins.

Hvað loftslagsmálin varðar hefur verið unnið að uppfærslu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum eftir ítarlegt samráð við atvinnulífið. Unnin var skýrsla um loftslagsþol Íslands sem varpar fram fjölmörgum aðgerðum á því sviði sem farið er að framkvæma.

Hvað náttúru- og minjavernd snertir hefur verið unnið að því að auka sértekjur þjóðgarða og friðlýstra svæða sem þegar hefur skilað góðum árangri og er frekari vinna í gangi á því sviði. Einnig er unnið að mikilvægri stefnumótun um líffræðilega fjölbreytni sem og að mögulegri stofnun þjóðgarða á sunnanverðum Vestfjörðum og á Langanesi. Einnig var unnin skýrsla um stöðu, áskoranir og tækifæri í minjavernd ásamt tillögum að úrbótum og er vinna við þær aðgerðir hafin.

Mikil vinna hefur verið í gangi á sviði náttúrvár er snýr að því að uppfylla markmið um að ljúka uppbyggingu varnarmannvirkja. Þá hafa eldsumbrotin á Reykjanesi verið umfangsmikil. Unnin var skýrsla um náttúruvá á grunni þingsályktunartillögu sem felur í sér fjölmargar aðgerðir sem vinna þarf að á næstu árum og ber þar hæst mikilvægi þess að móta heildstæða stefnu um náttúruvá.

Á sviði úrgangsmála og umhverfisgæða hefur verið unnið að ýmsum mikilvægum verkefnum að undanförnu og fram undan eru miklar áskoranir á því sviði. Má í því sambandi nefna viðamikið samstarf og styrkingu sveitarfélaga og hagsmunaaðila er sinna nýsköpun á sviði hringrásahagkerfisins. Einnig önnur verkefni í tengslum við hreinsun fráveitu, bætt loftgæði og breytingar á regluverki Úrvinnslusjóðs.

Þá hefur verið unnið að auknu hagræði í rekstri með fækkun og sameiningu stofnana ráðuneytisins. Einnig er í undirbúningi með Ríkiskaupum að bjóða út að einkaaðilar taki að sér að sinna þjónustu til ferðamanna innan þjóðgarða og friðlýstra svæða.

Virðulegi forseti. Þetta eru í mjög stuttu máli stóru línurnar hvað varðar þau málefnasvið sem undir mig heyra. Ég fagna því að sjálfsögðu að fá tækifæri til að eiga samtal við þingmenn um einstök atriði hér á eftir.