154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:14]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Varðandi aðgerðaáætlunina þá getum við sagt að hún sé mjög langt komin, hún hefur tekið langan tíma. Þó ber að hafa í huga að við vorum langt á eftir öðrum löndum að vinna hlutina með þessum hætti. Svo að það sé bara sagt þá var það nokkur áskorun vegna þess að stjórnvöld hafa almennt ekki unnið með atvinnulífinu og öðrum hagaðilum eins og við höfum gert þarna. Aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við hafa lengri reynslu í því. Þetta hefur tekið drjúgan tíma og við höfum ekki enn fengið niðurstöðu í stórum málum. Ég hef verið of glaður með að koma með dagsetningar fram til þessa og tek það á mig en ég er bjartsýnn að eðlisfari og tel að þetta sé alltaf að renna. Síðan er það bara þannig að ég er hættur að nefna dagsetningar en eigum við ekki bara að segja vorið, þannig að því sé svarað?

Varðandi það hvort við náum markmiðunum 2030 þá er það það sem við stefnum að. En það er brekka, þetta eru metnaðarfull markmið sem þessi heimshluti, því að við erum að vinna þetta í samvinnu við aðra, hefur sett sér. Það er mjög mikilvægt að vera með raunhæfar áætlanir og eins og loftslagsráð hefur kallað eftir skiptir máli að þetta sé vel skilgreint og vel mælanlegt þannig að við náum þeirri niðurstöðu sem við viljum fá. Varðandi 2040, þá kem ég kannski betur inn á það á eftir.