154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:16]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Hann sagði vorið og ég vona að hann sé að tala um vorið 2024 (Umhvrh.: Þetta var nú ekki alveg sanngjarnt.) — kannski ekki alveg sanngjarnt en of gott til að láta það sleppa. Hins vegar er það þannig að eins og við vitum, og þurfum kannski ekki að fara nánar yfir í þessari andsvarasessjón, er þessi aðgerðaáætlun algjört lykiltæki svo að hægt sé að vinna eftir tímasettum og tölusettum markmiðum í því að losa minna, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Það er líka markmið, eins og hæstv. ráðherra fór yfir hér, að auka orkuöflun. Það er í sjálfu sér gott til þeirrar starfsemi sem við viljum að slík orkuöflun fari í, t.d. til orkuskiptanna. En mig langar til að halda áfram að spyrja hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hér í þessum sal að því hvernig hann og hvernig stjórnvöld ætli að tryggja að orkan sem aflað er fari til þeirra verkefna sem við viljum hafa í forgangi, hvort heldur það eru orkuskipti eða græn atvinnustarfsemi.