154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:21]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar. Ástæðan fyrir því, ef við ætlum að draga þetta saman með einföldum hætti, að orkuverð er að hækka er ekki bara dreifing og slíkur kostnaður heldur bara sú að það er minna til. Það er bara orðinn orkuskortur. Við höfum verið mjög lítið í orkuöflun síðustu 15–20 árin. Hv. þingmaður nefnir t.d. jarðvarmann. Við höfum varla farið í jarðhitaleitarátak á þessari öld fyrr en við fórum í það núna fyrir tveimur árum, held ég, sem hefur skilað árangri, m.a. á svæði sem hv. þingmaður þekkir mjög vel. En áhersla okkar er á að búa til græna orku vegna þess að það vantar græna orku og ekki síst í hinum dreifðu byggðum. Allir sem búa við hitaveitu vita hversu mikil lífsgæði fylgja því og hversu mörg tækifæri. En það kemur ekki af sjálfu sér. Orkan mætir ekki bara á skrifstofu orkufyrirtækisins einn daginn, það þarf að leita að henni. Við höfum eðlilega sett gríðarlega mikla fjármuni í að jafna kostnað en við höfum ekki verið að leita að orkukostum og ekki verið að framleiða orku. Það er það sem við þurfum að gera.

Af því að ég veit að hv. þingmaður ber Vestfirði mjög fyrir brjósti þá erum við þar í þeirri stöðu að næststærsta orkuverið, sem er nærri jafn stórt og það stærsta, er knúið áfram af dísil. Það notaði 200.000 lítra fyrir nokkrum árum en notar væntanlega núna 3,6 milljónir lítra. Þess vegna erum við að leggja þessa miklu áherslu á að framleiða meira af grænni orku, leita að jarðhita og sömuleiðis að það sem er í nýtingarflokki verði nýtt. Það mun nýtast öllum og ekki síst hinum dreifðu byggðum.