154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:32]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Þetta upprunaábyrgðakerfi er byggt til að ýta undir græna orkuöflun. Þess vegna kaupa menn upprunavottorð. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni; þetta eru ekki neinir vitleysingar, þeir eru að nota oft og tíðum orku frá jarðefnaeldsneyti en kaupa upprunavottorð til þess að ýta undir græna orkuöflun. Til þess er leikurinn gerður og við Íslendingar og Norðmenn t.d. fáum gríðarlegar tekjur af þessu. Það er ætlað að íslensk orkufyrirtæki geti fengið allt að því 17 milljarða kr. á ári af þessu en síðan fellur þetta niður þegar menn eru búnir að ná markmiðunum. Þetta er tímabundið fyrirkomulag til að hvetja til þess að búa til græna orku. Til þess er leikurinn gerður. Það breytir því ekkert og (Gripið fram í.) það vita það allir að við erum með grænt hagkerfi.

Varðandi Hvammsvirkjun þá hefur það nú bara verið í fréttum, vonandi er hægt að hefja framkvæmdir þar síðsumars. Eins og ég nefndi er líka mjög margt annað í gangi. Það liggur hins vegar fyrir að það er komið að skuldadögum af því að höfum gert lítið í 15–20 ár þannig að næstu ár verða ansi erfið. En eftir það þá eigum við — að því gefnu að nýtingarkostir séu nýttir, að orkufyrirtækin geri það sem er í gangi, sem ég ræð ekki — að sjá mikið framboð af grænni orku á næstu árum.