154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:33]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Það er kannski viðeigandi að við eigum þessa umræðu núna á sama tíma og fyrir utan þinghúsið stendur yfir loftslagsverkfall ungmenna. Við heyrum óminn hérna í gegnum gluggana frá fólki sem er að kalla eftir markvissari, metnaðarfyllri og raunhæfari aðgerðum og vonandi að við tökum það til okkar. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í loftslagsmálin aðallega. Í kafla 17 er markmið um samdrátt í samfélagslosun gróðurhúsalofttegunda. Það vekur athygli að það virðist vera miðað við það markmið sem áætlað er að verði hlutdeild Íslands í sameiginlegu samdráttarmarkmiði Íslands og Evrópusambandsins. Það markmið þýðir að væntanlega komi í hlut Íslands 41% samdráttur á samfélagslosun. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í tilefni af þessu hvort loforð stjórnarsáttmálans um 55% samdrátt á þessu sama sviði sé þar með bara úr sögunni. Ég hefði haldið að þegar fólk setur það sem sitt markmið væri það mögulega markmiðið sem það myndi líka setja í fjármálaáætlun. Í þessari markmiðatöflu kemur líka fram að staða samfélagslosunar sé sú að árið 2023, þótt reyndar séu þetta tölur frá 2022, hafi verið kominn fram 11% samdráttur í losun í þessum geira. Viðmiðið sem stefnt er að árið 2025 sé hins vegar 22% samdráttur. Þessi 11% sem þarna þurfa að nást samkvæmt þessari áætlun á næsta ári eru svona 300.000 tonn af CO2-ígildum. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvar í þessari áætlun eru fjármagnaðar aðgerðir sem er hægt að telja upp í 300.000 tonna samdrátt?