154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:35]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og sömuleiðis áhuga á loftslagsmálum. Eins og ég hef nefnt þá held ég að það skipti mjög miklu máli að fara í dýptina í því og ég vona að því meira sem við ræðum það þá öðlist sem allra flestir skilning á því hvað þarna er á ferðinni því það verður auðvitað að segjast eins og er að þetta er nokkuð flókið. Ég held að það sé eðlilegt að miða við það sem við höfum skuldbundið okkur til að gera, þegar við tölum um fjármálaáætlun. Ef við komumst fram yfir það þá er það bara mjög gott en eins og kallað hefur verið eftir þá verða þetta að vera raunhæfar aðgerðir. Það sem er verið að fjármagna eru aðallega orkuskiptin vegna þess að það vegur langþyngst. En sömuleiðis, ef við skoðum bara hvernig þetta hefur þróast á milli ára, hvar okkur hefur gengið vel og hvar okkur hefur gengið illa í loftslagsbókhaldinu, þá er það í rauninni bílaumferðin því að þrátt fyrir að við höfum verið með hátt hlutfall rafbíla þá er það svo að þegar ferðaþjónustan fer aftur af stað með bílaleigubílunum og öðru slíku þá verður aukning þar. Svo eru náttúrlega stóru hlutirnir með verksmiðjurnar sem við keyrðum áður með rafmagni en núna með jarðefnaeldsneyti. Það er aukning sem er mikil og meira að segja líka þegar kemur að húshitun og rafmagni fyrir heimili, það fer líka upp. Það er einfaldlega vegna þess að við erum ekki með græna orku í það. Þetta spilar allt saman.

Fjármögnunin er, alveg eins og hv. þingmaður hefur séð, þar sem mestu líkurnar eru á því að við getum náð árangri og það er í orkuskiptum. Við erum að styðja fólk til að kaupa sér rafbíla og það sem er ánægjulegt í því er að núna erum við að sjá framboð af stórum rafbílum, í æsku minni voru þeir kallaðir trukkar, og jafnvel stærstu bílana af stóru bílunum á Íslandi er hægt að keyra á rafmagni og það eru auðvitað miklar gleðifréttir. En þarna er stórt verk að vinna.