154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:38]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra átti sig alveg á skalanum sem við erum að tala um. Það að draga úr samfélagslosun um þessi 11% sem segir í áætlun ríkisstjórnarinnar að þau ætli að gera á næsta ári er þrefalt það sem þessi ríkisstjórn hefur gert frá árinu 2017 þegar hún tók við. Það kallar á stórátak. Þetta jafngildir því að taka hálfan bílaflotann, helminginn af þeim fólksbílum sem eru knúnir jarðefnaeldsneyti af götunum á næsta ári. Ég sé ekki aðgerðir fjármagnaðar á næsta ári sem standa undir þessu. Það að vísa eitthvað óljóst í orkuskipti dugar mér ekki, ég vil fá skýrari svör. Ég vil bara að minna ráðherrann á að í hinni ágætu rammagrein um stuðning við loftslagsmál er sýnt myndrænt fram á að framlög til málaflokksins hafa aukist á síðustu árum vegna kaupvilja almennings. (Forseti hringir.) Þau hafa hrunið á síðustu tveimur árum og það á að halda þeim flötum á tímabili fjármálaáætlunar. (Forseti hringir.) Hvar er peningurinn til að draga úr losun um 300.000 tonn af CO2-ígildum á næsta ári eins og ríkisstjórnin segist ætla að gera?