154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:39]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir aðra ræðu sína. Ég ætla ekki að útiloka að það hafi kannski verið gerð einhver mistök þarna varðandi 2025 og það sem hv. þingmaður vísaði til. Hins vegar er líka rétt að benda á það að þegar kemur að orkuskiptunum þá erum við að gera nákvæmlega það sama eins og þegar við fórum í hitaveituvæðinguna. Við erum að niðurgreiða meðan við erum að fara úr jarðefnaeldsneyti yfir í græna íslenska orku. En það er alltaf tímabundið. Orkusjóður t.d. sem var notaður til þessa verks þá og nú var stofnaður 1967 en hann lá síðan næstum því í dvala í einhverja áratugi meðan við vorum ekki að sinna því. Þannig að það er alveg ljóst að það er ekki hugmyndin að vera með ívilnanir eða styrki til rafbílakaupa til allrar framtíðar. En við þurfum bara að skoða þetta sem hv. þingmaður vísaði til. Kannski hefur eitthvað misfarist þar, ég ætla ekki að útiloka það. (Forseti hringir.) En hins vegar er þetta áætlun, eðlilega, þ.e. að fjármagna orkuskiptin og ýta undir þau.