154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:43]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna en sömuleiðis fyrir að taka upp hringrásarmálin sem eru algjör forgangsmál hjá okkur líka. Hv. þingmaður fór vel yfir rökin fyrir því af hverju við skyldum ýta undir hringrásarhagkerfið og við höfum lagt á það áherslu. Meðal annars kom út skýrsla sem hét 200 þúsund tonn af tækifærum, undir forystu Þórs Sigfússonar, sem nú er forstöðumaður Sjávarklasans, en Sjávarklasinn er í rauninni gott dæmi um hringrásarhagkerfið. Þar sem við Íslendingar stöndum okkur best í hringrásarmálum er í sjávarútvegi því við nýtum nærri því allan þann afla sem kemur á land á meðan heimurinn er að nota í kringum 50% en henda afganginum. Það eru bara góð viðskipti og sumt af því sem við hentum áður er orðið verðmætara en það sem við höfum alltaf nýtt. Sömuleiðis höfum við lagt áherslu á að setja upp Hringrásarklasann og ýta undir nýsköpunarverkefni víðs vegar um landið til þess að nýta þau tækifæri sem þar eru því þetta eru tækifæri. Þegar kemur að skattalegum hvötum þá eigum við hins vegar að skoða það og auðvitað gerum við það. En af því að hv. þingmaður nefnir viðgerðirnar þurfum við líka að líta til þess að við séum með fólk eins og t.d. skósmiði sem hafa mjög mikið að gera, ég þekki það af eigin reynslu. Það vantar fólk til að sinna þeim verkefnum þannig að við þurfum að líta á alla þessa þætti. En þessi skýrsla, 200 þúsund tonn af tækifærum, tók á hlutum sem manni finnst svo sjálfsagt; endurnýta malbik, bílrúður, nýta þær betur, varahlutir í bíla, sem hafði meira með hugarfar að gera og vilja frekar en að við þyrftum að koma með sérstaka hvata.