154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:50]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræður. Að vísu er það rétt að á tímabilinu 2024–2030 eru settir 40 milljarðar í orkuskipti í samgöngum. Er þetta nóg? Það er bara þannig, virðulegi forseti, þannig hef ég nálgast mín störf, að þú verður að nýta þá fjármuni sem eru til staðar með eins hagkvæmum hætti og mögulegt er. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn hafi það í huga að það er miklu hagkvæmara að vera á rafbíl heldur en að vera á bíl með jarðefnaeldsneyti. Það munar bara mjög miklu. Það skiptir máli í þessu samhengi að allt spili saman. Það er auðvitað þannig, af því að hv. þingmaður vísaði hérna í vetnisvísinn og annað slíkt, að það er harla ólíklegt að við getum gert þá hluti án samstarfs við aðra. Þetta eru nýjar lausnir, þótt við höfum framleitt vetni lengi, og þegar kemur að svona stórum skala þá verðum við að vera í alþjóðlegu samstarfi, sýnist mér, þegar kemur að því. Við höfum hér allt til þess og reyndar sögu líka en við skulum auðvitað horfast í augu við það að heimurinn er að eiga við þetta og það eru miklu stærri aðilar en við sem eru sem betur fer að fara í þessa hluti. Við njótum oft góðs af því og mikilvægt að við séum í þéttu samstarfi þegar kemur að þessu. Ég held að núna sé svolítið verkefnið að koma því skýrt til skila að það er hagkvæmara, mun hagkvæmara að vera á rafbílum heldur en á jarðefnaeldsneytisbílum. Það skiptir gríðarlega miklu máli. Það er mikilvægt að 50% skráningarnar okkar, sem eru bílaleigurnar, þær komi inn í það. Það er mjög erfitt ef ekki ómögulegt að ná þessum markmiðum nema það gerist með einhverjum hætti. Þetta er verkefni sem við höfum lagt áherslu á að reyna að vinna með þeim aðilum sem þurfa að framkvæma þetta og munum halda því áfram.