154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:53]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það væri nú gott ef þetta væri bara einfalt margföldunardæmi. En þetta er bara ekki þannig, það er nefnilega alls ekki þannig. Við sem keyrum rafbíl þekkjum t.d. mikilvægi innviða og þess vegna hef ég lagt mikla áherslu á bílaleigurnar vegna þess að ef þær fara af stað þá er ég sannfærður um það að allir gististaðir og hótel og veitingastaðir munu koma sér upp hleðslustöðvum strax. Flækjustigið skiptir líka máli. Ég er nú maður ívilnana frekar en styrkja. Það er líka mikilvægt að koma upplýsingum áleiðis. En við verðum auðvitað alltaf að hugsa þetta út frá neytendunum og eitt af því sem enginn veit, meira að segja ekki hv. þingmaður og ekki ég, er: Hvernig verður þróunin? Menn eru með alls konar spár varðandi verðlagningu á rafbílum og drægni. Menn héldu að verðið yrði orðið lægra heldur en það er í dag. En það sem kom í rauninni á móti var að drægnin varð meiri. Þannig að það er ekki svo gott, virðulegi forseti, að við séum með hér excel-skjal sem mun nákvæmlega segja okkur hver þróunin verður og það verður að líta til margra þátta í þessu, virðulegur forseti.