154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:57]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Fyrst aðeins út af fyrra atriðinu: Síðast þegar við fórum í sértækar aðgerðir í orkuvinnslu tók það sjö ár frá því að frumvarpið kom inn í þingið þar til raforkuframleiðsla hófst. Við höfum ekki sjö ár, það er bara þannig. Við verðum að breyta fyrirkomulaginu og það er það sem við höfum gert. Við samþykktum rammann í fyrsta skipti í níu ár og aflaukningarfrumvarpið sem var einföldunarfrumvarp er orðið að lögum. Það þýddi að stækkanir virkjana eiga ekki lengur að fara í gegnum rammaferlið heldur strax í umhverfismat og þar eru nokkur hundruð megavött í pípunum. Ég nefni að varmadælufrumvarpið sem var einföldun til að hjálpa fólki að spara orku varð að lögum. (BÓ: Nýjar aðgerðir?) Varðandi nýjar aðgerðir þá höfum við verið í jarðvarmaleitinni. Við erum nú komin með frumvarp um vindorkuna. Það olli mér reyndar miklum vonbrigðum, því að það er mikil einföldun, að heyra viðbrögð Miðflokksins við því einföldunarfrumvarpi. Ég er sammála hv. þingmanni þegar kemur að áherslunum, en þegar kemur að gerðunum — ræða formanns Miðflokksins um það gekk bara út á að taka þennan græna orkukost og banna hann. Ég held að formaður Miðflokksins hafi bara viljað banna vindmyllur, ég gat ekki heyrt annað. Við erum sömuleiðis að einfalda rammann, sú vinna er í gangi og frumvarpið kemur í haust. Og síðan kemur auðvitað, eins og ég kynnti hér í framsögu minni, ef hv. þingmaður hlustaði á hana, 4. áfangi rammaáætlunar í vor og 5. áfangi kemur í haust. Svo erum við auðvitað með einföldunarverkefni og afhúðunarverkefni varðandi gullhúðun; ef við þurfum að fara í lagabreytingar varðandi einföldunardæmi þá kemur það í haust. Sameiningar stofnana hafa legið lengi fyrir þinginu sem er grunnurinn að þessari einföldun. Það er því búið að gera miklu meira á tveimur árum en áratuginn þar á undan.

Sem betur fer sjáum við fram á að Landsvirkjun bjóði út fyrir 100 milljarða á þessu ári. Landsnet er að fara í stærsta fjárfestingarátak (Forseti hringir.) í flutningskerfinu og við sjáum stefnubreytingu Orkuveitu Reykjavíkur. Það er því mjög margt í gangi, virðulegi forseti.