154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[13:01]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir annað andsvar hjá hv. þingmanni. Auðvitað er auðvelt að lesa ræðu formanns Miðflokksins í þessari umræðu en látum það liggja á milli hluta. Ég er fylgjandi ívilnunum, en það er bara þannig að maður ræður ekki öllu. Þú getur sagt að þetta komi í sama stað niður en mér finnst hitt hins vegar einfaldara og skilvirkara. (Gripið fram í.) Það var svo sannarlega ekki tillaga frá mér, mjög langur vegur frá því. Við erum hins vegar að meta hverjar afleiðingarnar eru. Ég vek athygli á því að það er miklu hagkvæmara að vera á rafbíl en á jarðefnaeldsneytisbíl og þannig verður það. Það er líka mjög mikilvægt að það komi fram. En við erum auðvitað bara að meta þetta og höfum gert það. Við höfum fylgst með því hver þróunin hefur orðið. Þetta gekk einstaklega (Forseti hringir.) vel á síðasta ári, ég held við höfum verið best í heimi á þeim tíma. En við þurfum að vera virkilega vakandi í þessu.