154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[13:04]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi seinni spurningu hv. þingmanns er rétt að taka það fram, ef það hefur farið fram hjá hv. þingmanni, að heimurinn er að gera hluti sem hann hefur aldrei gert áður. Ég segi bara hlutina eins og þeir eru vegna þess að það er þannig að menn eru að læra eitthvað nýtt á hverjum degi þegar kemur að þessum þáttum. Þess vegna segi ég bara frá því. Við erum að vinna mjög mikið af því vegna þess að margt orkar tvímælis í þessu og ég hef margar spurningar hvað þetta varðar og ég vil fá svör við þeim. Við erum að rannsaka hluti sem við höfum ekki rannsakað með þessum hætti áður, eins og aðrar þjóðir. Við erum ekkert ein í þessu. Þannig er það bara.

Hins vegar varðandi raforkumarkaðinn þá átta ég mig ekki alveg á því til hvers hv. þingmaður er að vísa. Nú er það þannig að við munum sjá í auknum mæli nýtingu glatvarma, þ.e. til að mynda frá stórum verksmiðjum, aðilar geta nýtt þá orku sem kemur frá viðkomandi starfsstöðvum. Það er algerlega okkar hagur að það fari inn á markað, fari inn á kerfið. Vindorkan verður ekkert alltaf stöðug. Birtuorkan verður ekkert alltaf stöðug. Ekki einu sinni vatnsaflsvirkjanirnar, eins og við þekkjum, það er misjöfn staða í lónum. Sama með jarðvarmann. Við erum líka að sjá það, og það er löngu skeð í öðrum löndum, að núna eru að koma inn þeir sem kallaðir eru framneytendur, fólk og fyrirtæki sem bæði framleiða og nota. Ég bara vísa til þess. Hv. þingmaður gæti t.d. á morgun sett upp birtuorkuver á húsinu sínu ef hann á eitt slíkt. Svo getur bara meira en verið að hann framleiði miklu meira en hann þarf að nota og ef við ætlum að nýta orkuna sem best verður að hafa markað þannig að hv. þm. Eyjólfur Ármannsson geti selt orkuna sem hann framleiðir heima hjá sér. (Gripið fram í.) Þetta er nákvæmlega það sem við erum að gera. Þess vegna er talað um markað. Út á hvað gengur þetta? Þetta gengur út á það að nýta orkuna sem best þannig að í þessu tilfelli, ef hv. þm. Eyjólfur Ármannsson (Forseti hringir.) framleiðir meiri orku en hann þarf að nota, þá nýtist hún.