154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[13:14]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar. Við vorum nú að ræða þetta hér áðan áður en hv. þingmaður kom inn í þingsal. Ég hef gerst sekur um það að vera of glaður með að koma með dagsetningar og ég er hættur því og er nú að tala um vorið. En ástæðan fyrir því að þetta hefur tekið tíma, og það er náttúrlega mjög mikið tilbúið, er að við erum að gera hluti sem við erum almennt ekki vön að gera, þ.e. að stjórnvöld og atvinnulífið og þeir hagaðilar vinni með þessum hætti. Aðrar þjóðir hafa meiri reynslu af því og það var líka búið að gera þetta þegar ég kom inn í ráðuneytið í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þannig að jafn vont og mér finnst, verandi óþolinmóður maður, að við séum ekki komin lengra þá bara stendur málið þannig. Það er mikil og góð vinna sem er búið að klára en við munum kynna í vor nýja uppfærða aðgerðaáætlun sem er mun nákvæmari en sú sem við erum með núna. En það er mikil vinna að eiga samráð og samvinnu og samtal og best er náttúrlega þegar samstaða næst, og við eigum enn eftir að ná samstöðu (Forseti hringir.) um mjög mikilvæga hluti. En það er mjög mikið búið og náttúrlega (Forseti hringir.) margar aðgerðir sem liggja fyrir sem ég hlakka til að kynna. (GRÓ: Já, sumarið byrjar á fimmtudaginn í næstu viku.)