154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[13:18]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þar sem hv. þingmaður er að vísa í er skýrsla sem ég á enn þá eftir að fá kynningu á en ég get samt núna á þessum tveim mínútum aðeins farið yfir efni máls. Þegar ég kom inn í ráðuneytið þá fékk ég kynningu á skýrslu sem var búið að gera í tengslum við sambærilegt verkefni, en þetta er á vettvangi sveitarfélaganna, það eru sveitarfélögin sem bera ábyrgð á þessu. Til að gera langa sögu stutta var kostnaðurinn við það verkefni eins og það var lagt upp gríðarlega hár og erfitt að sjá að það myndi ganga eftir. Ég hef átt mikið samstarf við Samband íslenska sveitarfélaga og einstaka landshlutasamtök þar sem við höfum stutt þau í því að finna lausnir á þessu og öðru og ég hef vonir um að í þessari skýrslu sem hv. þingmaður vísar til séu raunhæfar leiðir til að fara í svona verkefni. Ef svo er þá á ég nú ekki von á því að ráðuneyti hafi skúffufé til að setja í það. Hv. þingmaður nefndi þarna tölur sem eru mjög háar. En ég held að það sé mjög mikilvægt að við höfum stutt við verkefni á þessu sviði eins og við höfum getað og leggjum höfuðáherslu á að eiga og höfum átt mjög gott samstarf við sveitarfélög, bæði öll samtökin og sömuleiðis landshlutasamtökin, ég reyndar heimsótti aðalfundi allra þeirra á síðasta ári. En guð láti gott á vita. Þessi grein vekur upp vonir og við skulum vona að þetta verði að veruleika. En ég mun ekki geta sagt á þessum tveimur mínútum hver aðkoma okkar verður eða ríkisvaldsins. Það er eitthvað sem þarf að setjast yfir þegar menn fara yfir málið með þessa skýrslu og aðrar sambærilegar til grundvallar.