154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[13:21]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Það er samt alltaf markmiðið að brenna eins lítið eins og hægt er af því að við viljum endurnýta eins og kom hérna fram í ræðu hv. þm. Orra Páls Jóhannssonar, það er auðvitað best. En það er ekki hægt að gera með alla hluti. En vandi okkar er, jafn skrýtið og það er, að þó að við séum með mikið sorp á hvern einstakling þá erum við enn þá það fá að t.d. þegar við berum okkur saman við sambærilega hluti í Danmörku. t.d. í Kaupmannahöfn, þá ertu þar með miklu fleira fólk á minna svæði og auðveldara að safna sorpinu saman og brenna því, því að kostnaðurinn við að flytja sorp er umtalsverður á Íslandi, ég tala nú ekki um ef menn taka yfir allt landið og safna sorpinu saman á einn stað. Ég hef lagt áherslu á að við séum með nýsköpun á þessu sviði og hugsum um þetta út frá íslenskum aðstæðum því að þegar við náum slíkum lausnum þá er það ekki bara gott fyrir okkur heldur er það líka útflutningsvara fyrir önnur svæði í heiminum þar sem er fátt fólk á stóru svæði.