154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[13:23]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Málefni matvælaráðuneytisins hafa nokkuð verið í deiglunni síðustu misseri. Það er eðlilegt, á könnu ráðuneytisins er fjöldi málaflokka sem varða okkar daglega líf, matinn sem við borðum, atvinnu og fjölda annarra þátta. Þau málefnasvið sem falla undir lögsögu matvælaráðherra eru fyrst og fremst málefnasvið nr. 12 og 13 og það útfærist á talmáli sem málefni landbúnaðar, sjávarútvegs og lagareldis.

Verkefni fram undan í matvælaráðuneytinu byggja á markvissri stefnumótun síðustu ára. Lagt hefur verið upp úr því að skapa langtímasýn í kjarnagreinum matvælaframleiðslu. Í landbúnaði er stefnt að því að efla enn frekar fæðuöryggi, tryggja heilbrigði plantna og dýra, velferð þeirra sem og heilnæmi og öryggi matvæla. Áfram verður unnið að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna landbúnaðar og auka bindingu. Markmiðið er að reyna að skapa skilyrði fyrir fjölbreyttari landbúnaðarframleiðslu með sjálfbæra landnýtingu og nýsköpun að leiðarljósi.

Virðulegur forseti. Líkt og fram kemur í fjármálaáætlun skýrist breytingin á útgjaldaramma málefnasviðsins m.a. af raunbreytingum á framlögum vegna búvörusamninga í samræmi við ákvæði samninganna sem undirritaðir voru 2016 og gilda til ársins 2026. Fjárhæðirnar eru tilgreindar í samningnum en rétt er að geta þess að þær fjárhæðir taka breytingum þar sem þær fylgja verðlagi, þ.e. vísitölu neysluverðs, sem endurspeglast í fjárlögum hvers árs. Þar fyrir utan skýrist breytingin af almennum aðhaldsráðstöfunum á málefnasviði sem nema um 250 millj. kr. auk þess sem gert er ráð fyrir að niður falli samtals um 310 millj. kr. á tímabilinu vegna tímabundinna framlaga. Þar vegur þyngst niðurfelling á 200 millj. kr. tímabundnu framlagi til sérstakra aðgerða í landbúnaði sem kom inn vegna tillagna ráðuneytisstjórahóps sem skilaði sínum tillögum eins og við munum í lok árs 2023.

Á móti er gert ráð fyrir að fjárheimildir málefnasviðsins verði auknar um samtals 391 millj. kr. á tímabilinu og þar ber hæst aukið fjármagn til eflingar kornræktar samkvæmt aðgerðaáætlun, um 2 milljarðar á gildistíma áætlunarinnar. Gert er ráð fyrir að framlag til verkefnisins hækki í 378 millj. kr. á árinu 2025 og fari síðan upp í 478 millj. kr. frá og með 2027. Fjármagn er veitt vegna aðgerða til innleiðingar verndandi arfgerða í íslenska sauðfjárstofninn og er mikið kappsmál fyrir okkur öll að þau áform gangi sem best og ekki stendur á viðbrögðum. Það er skemmst frá því að segja að 86% sæðingastyrkja vegna sæðinga á vegum sauðfjársæðingastöðva á síðustu árum runnu til sæðinga með hrútum sem bera verndandi arfgerð gegn riðuveiki, svo dæmi sé tekið. Þetta er mikilvægur liður í vinnu við landsáætlun um riðuveikilaust Ísland þar sem horft er til innleiðingar verndandi arfgerða í íslenska sauðfjárstofninn. Í fjáraukalögum síðasta árs var gert ráð fyrir 58 millj. kr. framlagi á því ári til að mæta kostnaði við arfgerðargreiningar og ræktun og í núgildandi fjárlögum var gert ráð fyrir 110 millj. kr. framlagi til verkefnisins. Það er alveg ljóst að þessi vinna skiptir gríðarlega miklu máli fyrir íslenskan landbúnað og að fjárhagslegir hagsmunir ríkissjóðs eru miklir ef þessi áform ganga eftir og ekki síður fyrir bændur þar sem miklum fjármunum hefur verið varið í niðurskurð á sauðfé vegna riðusmita eins og við vitum svo vel. Áætlaður kostnaður verkefnisins er samtals um 608 millj. kr. á tímabilinu 2023–2029.

Þá er gert ráð fyrir 100 millj. kr. tímabundnu framlagi til að auka getu Matís til að greiða fastan kostnað á móti fengnum styrkjum í erlendum samkeppnissjóðum. Fjármagn er tryggt til byggingar á jarðræktarmiðstöð fyrir Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, í gegnum fjárlagalið 21. Markmiðið er að tryggja aðstöðu til tilraunakennslu og nýsköpunar í jarðrækt í samræmi við stefnu stjórnvalda varðandi fæðuöryggi. Áætluð verklok eru árið 2026.

Aðrar breytingar á fjárheimildum málefnasviðsins skýrast fyrst og fremst af endurskoðaðri tekjuáætlun ríkisaðila með samsvarandi breytingum gjaldamegin, auk þess sem gert er ráð fyrir auknum fjárheimildum til loftslagsaðgerða í landbúnaði en loftslagsbreytingar af mannavöldum eru eins og við vitum ein helsta áskorunin í matvælaframleiðslu.

Þá vil ég nefna, því þótt það sé ekki hluti af fjármálaáætlun þá varðar það sannarlega mikilvæga stefnumótun innan míns ráðuneytis, mótun aðgerðaáætlunar til eflingar lífrænnar framleiðslu sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála. Meginmarkmið hennar er að 10% af landbúnaðarlandi á Íslandi verði komin með lífræna vottun árið 2040. Í áætluninni eru tilgreindar aðgerðir sem miða að því markmiði, m.a. um aðlögunar- og rekstrarstyrki, nýtingu lífræns úrgangs, rannsóknir, ráðgjöf og nýsköpun og markaðsstarf og fræðslu. Drög að aðgerðaáætluninni voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í lok síðasta árs og unnið hefur verið úr athugasemdum sem bárust. Til að hrinda aðgerðaáætluninni í framkvæmd og gefa henni aukið vægi hefur ráðuneytið til skoðunar að leggja til að ákveðið fjármagn verði veitt til verkefna sem tilgreind eru í áætluninni þegar hún verður kynnt. Er þá einkum horft til fjárfestingar- og tækjastyrkja og aðgerða sem snúa að fræðslu- og kynningarstarfi. Ég vænti þess að fá tillöguna formlega í hendur á næstunni og þá verður unnt að kynna hana formlega þannig að hún taki gildi og unnt verður að byrja að vinna að framgangi hennar.

Virðulegur forseti. Áhættuþættir í lagareldi eru nokkrir; umhverfisáhrif, erfðablöndun og dýravelferð, en flestum er orðið kunnugt um strok, sjúkdóma og sníkjudýr sem plagað hafa greinina. Það er því mikilvægt að styrkja umgjörð og eftirlit hennar svo að hún hafi tækifæri til að vaxa á sjálfbæran hátt. Stefnumótun lagareldis og frumvarp um lagareldi hafa að markmiði að lágmarka framangreinda áhættuþætti. Nú þegar hefur Alþingi tryggt aukna fjárveitingu til rannsókna á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis. Í fjármálaáætlun er tryggt fjármagn til rannsókna og vöktunar Hafrannsóknastofnunar auk fjármagns til eftirlits og leyfisveitinga stofnunarinnar vegna metnaðarfullra áforma um auknar rannsóknir og eftirlit í lagareldi vegna þess frumvarps sem áður er nefnt og ég vænti að mæla fyrir á næstunni. Aukið eftirlit er mikilvægur þáttur í þeim breytingum sem við viljum sjá í greininni. Mannleg mistök eru meginástæða stroks og er skýrt kveðið á um hert eftirlit og viðurlög við því og það sama má segja um laxalús. Markmiðið er eftir sem áður að gæta að umhverfis- og dýraverndunarsjónarmiðum, náttúruvernd og bættri umgengni um sameiginlegar auðlindir, þ.e. engin frávik án afleiðinga.

Á málefnasviði 13, sjávarútvegur og fiskeldi, er gert ráð fyrir að útgjaldaramminn aukist um 344 millj. kr. frá fjárlögum yfirstandandi árs fram til 2029, fyrst og fremst vegna aukinna framlaga til eflingar stjórnsýslu og eftirlits með fiskeldi eins og ég fór yfir. Sömuleiðis stendur til að efla hafrannsóknir og eftirlit með sjávarútvegi en samtals nemur hækkunin 700 millj. kr. til þessara verkefna á tímabilinu. Í fjárlögum yfirstandandi árs voru samtals 495 millj. kr. veittar til verkefnanna en gert er ráð fyrir að framlagið hækki um 350 millj. kr. á næsta ári og aftur um sömu fjárhæð á árinu 2026. Frá og með árinu 2026 er þannig ráðgert að veita tæplega 1.200 millj. kr. til að styrkja stjórnsýslu og eftirlit með fiskeldi og til að efla hafrannsóknir og eftirlit með sjávarútvegi.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir 248 millj. kr. hækkun á fjárheimild til fiskeldissjóðs á tímabilinu í tengslum við hækkun verðmætagjalds í sjókvíaeldi.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að veita 150 millj. kr. fjárheimild á árinu 2025 til tækjakaupa í nýtt hafrannsóknaskip sem er væntanlegt til landsins á haustmánuðum ef áætlanir ganga eftir.

Á móti þessum auknu fjárheimildum er annars vegar gert ráð fyrir að 200 millj. kr. tímabundin fjárheimild til hvalatalningar falli niður á næsta ári. Hins vegar er gert ráð fyrir almennum aðhaldsráðstöfunum á málefnasviði sem nema um 403 millj. kr. á tímabilinu. Aðrar breytingar á fjárheimildum málefnasviðsins skýrast fyrst og fremst af endurskoðaðri tekjuáætlun ríkisaðila með samsvarandi breytingum gjaldamegin og niðurfellingu á fjárheimildum til tímabundinna verkefna.

Sterkur sjávarútvegur og fiskeldi eru mikilvægir þættir í sjálfbærri matvælaframleiðsla á sama tíma og greinarnar eru mikilvægar atvinnu í landinu. Með því að skapa þessum burðargreinum skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi sköpum við farsælli framtíð fyrir okkur.