154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[13:31]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um frumvarp sem samið var eftir vinnuna í starfshópum sem báru yfirskriftina Auðlindin okkar og þáverandi matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, fór fyrir. Í þingmálaskrá var gert ráð fyrir frumvarpinu inn í þingið í mars en það gerðist ekki. Megum við eiga von á frumvarpinu áður en þingi lýkur fyrir sumarið? Það var margt jákvætt að finna í frumvarpsdrögunum, svo sem um upplýsingaöflun og gegnsæi. Er hæstv. núverandi matvælaráðherra ekki sammála því að skýra þurfi stjórnunar- og eignatengsl, líkt og lagt var til í frumvarpsdrögunum, og meta áhrif þeirra á hve stóran hluta kvótans einstök fyrirtæki megi fara með? Þar voru einnig hugmyndir um að öll viðskipti með aflaheimildir verði skráð og birt opinberlega og þannig verði séð hvernig aflaheimildir eru metnar til verðs. Ég fagnaði áherslunum sem leggja átti á auknar hafrannsóknir og að vistkerfisnálgun verði beitt við ákvarðanatöku um nýjar nýtingarleiðir í sjó, einnig áherslunni á auðlindaákvæði í stjórnarskrá en það ákvæði verður þó að halda með skýrum orðum um tímabindingu og eðlilegu gjaldi.

Í niðurstöðum vinnunnar um Auðlindina okkar var lagt til að veiðigjöld yrðu hækkuð. Í Gallup-könnun 2021 var niðurstaðan sú að 77% landsmanna vilja að útgerðin greiði markaðsgjald fyrir afnot af fiskimiðunum. Ég sé ekki í fjármálaáætluninni hvernig eða hvort hækka eigi veiðigjöldin eða ákvæði um auknar álögur á stærstu útgerðirnar sérstaklega, þessar sem mala gull og fara með mikinn meiri hluta kvótans. Ég spyr hæstv. ráðherra hvernig hún hyggst svara kalli þjóðarinnar um fullt gjald fyrir kvótann.