154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[13:33]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar og ég held að við séum sammála um það að við viljum einmitt skýra eignarhald og auka gagnsæi í sjávarútvegi. Ég vil segja hv. þingmanni með frumvarpið sem hér um ræðir, þ.e. stóra auðlindafrumvarpið, að það voru 95 umsagnir sem bárust um það. Það voru mjög ítarlegar athugasemdir sem ráðuneytið hefur verið að fara yfir og eru nýlega komnar á mitt borð, þ.e. tillögur til breytinga á þessum drögum sem fóru í samráðsgáttina. Ég er ekki viss um að ég nái að leggja það fram á þessu vorþingi en ég hyggst halda áfram með málið, svo það sé alveg skýrt þá hyggst ég leggja það fram. Ég hafði vonað að ég gæti gert það á vorþinginu en ég er ekki svo viss um það og veit heldur ekki hvernig yrði í það tekið að koma með svo stórt og umfangsmikið mál núna eftir frestinn. En sannarlega hef ég gert grein fyrir því að ég hyggist halda áfram með þetta mál eins og það hefur verið lagt fram og við þekkjum úr stóra samráðshópnum. Þannig að þetta er alla vega í þeim farvegi og ég veit ekki hvort það þarf hreinlega að setja það aftur í samráð vegna þess að það tekur talsverðum breytingum, trúi ég.

Varðandi veiðigjaldið þá er í þessum drögum að stóra frumvarpinu lagt til að tillaga ríkisskattstjóra um veiðigjaldið á uppsjávartegundirnar eigi að nema 45% af stofninum, en eins og við þekkjum var það áður 33%. Það er líka lagt til í þessu frumvarpi að felld verði brott heimild til að draga veiðigjaldið frá tekjuskattsstofni. Á síðasta ári voru veiðigjöldin um 10,1 milljarður en árið þar á undan tæpir 8. (Forseti hringir.) Gert er ráð fyrir því að það hækki talsvert á þessu ári en því hefur ekki verið breytt, (Forseti hringir.) ef þingmaðurinn er að spyrja mig um það, í fjármálaáætluninni að það eigi að hækka það (Forseti hringir.) umfram það sem er í dag og það fylgir væntanlega vinnunni um stóra frumvarpið.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna bæði þingmenn og ráðherra á að virða ræðutímann.)