154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[13:44]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með hv. þingmanni að efnahagsáhrif landbúnaðar eru talsvert mikil og mikilvægt að reyna að halda utan um það. Varðandi strandveiðarnar þá ætla ég bara að játa að það kom mér mjög á óvart þegar ég fékk lítil fjárlög í hendurnar, þ.e. bók sem er á stærð við fjárlögin, sem eru lögin um strandveiðar. Þau eru gríðarlega vel útfærð frá A til Ö, ofsalega erfitt að hreyfa sig í reglugerðarbreytingum og öðru slíku. Ég hefði viljað hafa meiri sveigjanleika. Ég er aðeins að reyna að hugsa um það hvort við einhverju sé hægt að hreyfa. En eins og ég segi, það þarf lagabreytingar við bókstaflega allt í því kerfi. Við þekkjum að það myndi ekki nást fyrir þessa vertíð. Það er alveg augljóst að það myndi ekki gerast. Það þarf þrjár umræður og allt það. En ég er að velta því upp hvort ég geti einhvern veginn gert eitthvað til að jafna leikinn.