154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[13:48]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að byrja á því að vera ósammála því sem hv. þingmaður sagði hér síðast. Varðandi dagana þá er það lagabreyting. Það er ekki hægt að gera það með öðrum hætti. Ef það ætti líka að tvöfalda dagana með þessum hætti þá þýddi það tæp 20.000 tonn sem væri þá ríflega tvöföldun á því sem nú er til staðar. Ég veit hvaða skoðun hv. þingmaður hefur á strandveiðum og það er allt í lagi, við getum alveg verið sammála eða ósammála um það. Það að líkja þessu saman við að málefni Grindavíkur fari hér í gegn á stuttum tíma finnst mér eiginlega — ég ætla ekki að segja meira um það. En alla vega, þrátt fyrir að einhver telji að hér geti frumvarp um þessi mál runnið í gegn sisvona þá er ekki víst að allir hinir séu því sammála. Ég ætla rétt að leyfa mér að halda því fram að það geti verið ágreiningur þar um.

Ég vil halda því til haga, eins og ég sagði hér áðan, að það er ekki útilokað að hægt sé að gera einhverjar breytingar til að jafna leikinn en það er snúið. Lögin um fiskveiðistjórnina eru bara talsvert niðurnjörvuð. En ég er alveg sammála hv. þingmanni, ég er í því kjördæmi sem ber skarðan hlut frá borði eftir þessar breytingar, nema kannski fyrstu tvö árin. Ég vil auðvitað ekki að það sé með þeim hætti þannig að ég myndi vilja beita mér fyrir því með öllum þeim ráðum sem ég get að það verði jafnari skipti. Það er heldur engum til góða að öll skip eða bátar sigli meira og minna af norðausturhorninu og fari á norðvestursvæðið. Það græðir enginn á því. Það er þá bara minna til skiptanna fyrir þá sem voru í Norðvesturkjördæmi. Það fluttu sig ansi margir bátar af norðausturhorninu og eru að gera það í dag.

Virðulegi forseti. Það er ekkert einfalt í þessu. Ég er líklega búinn að fá (Forseti hringir.) einar 15 tillögur að úrlausn frá strandveiðisjómönnum (Forseti hringir.) um það hvernig hægt sé að leysa þessi mál en flest af því þarf að fara í gegnum lagabreytingar.