154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[14:03]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er búin að ræða þetta mál talsvert, bæði hér og í opinberri umræðu. Í sjálfu sér er það þannig að ráðuneytið gerir ekki athugasemd við þinglega meðferð frumvarpsins og mun ekki aðhafast neitt frekar enda hefur þingið talað. Það hefur jafnvel verið talað um stjórnarskrána í þessu og annað slíkt. Hafandi setið í nefndinni þegar við vorum að fjalla um þetta mál þá held ég að hv. þingmaður viti að tilgangurinn var sannarlega sá að bæta starfsskilyrði landbúnaðarins til framtíðar, auka tækifæri til hagræðingar sem átti að vera til hagsbóta fyrir bændur og neytendur og þessi gagnrýni ráðuneytisins — ráðuneytið vill sjálft ekki einu sinni kalla þetta gagnrýni. Það segir bara: Okkur þótti ástæða til að viðra þessar áhyggjur, sem þau hafa gagnvart EES-réttinum fyrst og fremst. Ég tel það að sjálfsögðu allt í lagi ef ráðuneyti á hverjum tíma hefur áhyggjur af einhverju sem Alþingi er að samþykkja, að það láti vita af því og í sjálfu sér ekkert meira um það að segja. Ég afgreiddi málið hér sem þingmaður með þeim hætti sem gert var og hverf ekkert frá því að ég tel að við höfum verið að gera það sem þarf að gera og þurfti að gera til að reyna að bæta þessar aðstæður, ekki síst í ljósi þeirra sem við erum að keppa við, stóru framleiðendafélögin erlendis. En svo vil ég bara halda því til haga að það er endurskoðunarákvæði í þessum lögum, ef lögin nái ekki markmiði sínu þurfi auðvitað að skoða það frekar. Það finnst mér líka skipta máli. Já, ég held að ég sé búin að tjá mig þannig um málið að engu sé við það að bæta.