154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[14:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Nú þegar almenningur þarf að bera kostnað af hærri verðbólgu, hærra húsnæðisverði, hærri leigu og hærri vöxtum á lánum, er eðlilegt að fólk spyrji hvers vegna stjórnvöld sjái ekki til þess að stærri hluti arðsins af auðlindinni renni í ríkissjóð og til að greiða fyrir mótvægisaðgerðir til að jafna leikinn. Það er fráleitt, forseti, að markaðsverð á kvótanum renni úr vasa útgerðarmannanna í vasa barna þeirra og auður safnist á fárra hendur en ríkissjóður fái örfáar krónur fyrir auðlindina. Telur hæstv. ráðherra mikilvægt að fá vitneskju um það hvaða verð útgerðin treystir sér til að greiða fyrir veiðileyfin? Við þekkjum leiguverðið sem útgerðin krefst að fá sjálf fyrir kvóta. Útgerðir leigja núna frá sér kvóta á um 500 kr. kílóið af þorski en greiða sjálfar veiðigjöld í ríkissjóð sem eru rétt tæpar 27 kr. á kílóið. Kvótalausar útgerðir þurfa að bjóða í kvóta en ekki stórútgerðin. Finnst hæstv. ráðherra þetta boðlegt ástand eða hyggst hún beita sér fyrir almannahag í þessum efnum?