154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[14:48]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Til að byrja með þá held ég að það sé ekki uppbyggilegt þegar við tökumst hér á og ræðum málin á þessum vettvangi að saka hvert annað um að hafa ekki kynnt sér það efni og þau gögn sem manni berast og liggja fyrir. Í störfum mínum í allsherjar- og menntamálanefnd þingsins hef ég vissulega kynnt mér þau gögn sem vísað er til og geri ég mér grein fyrir því að niðurskurður er að hluta til, af tímabundnu framlagi, í tengslum við Covid-tímann. En ég tel hins vegar að það sé full ástæða til að taka mark á hagsmunaaðilum sem koma á framfæri upplýsingum sem ég hef ekki á þessu stigi forsendur til þess að vefengja. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að þó að hér hafi verið um að ræða einhvers konar innspýtingu, einhvers konar sprautu, jákvætt spark af hálfu hins opinbera í tengslum við hinn erfiða tíma sem vissulega var í kringum Covid, þá er ekkert því til fyrirstöðu að skoða hvort þessi tímabundna innspýting ætti hreinlega að endurspegla hið venjulega. Það er einfaldlega pólitísk forgangsröðun. Við getum alveg rætt hana hér án þess að við förum að væna hvert annað um að hafa ekki kynnt okkur málin. Mér finnst það ekki æskilegt, svo að það sé sagt.

En talandi um að kynna sér mál þá vildi ég spyrja hæstv. ráðherra um orðalag í 3. kafla í fjármálaáætlun, þar sem rætt er um útgjaldastefnu og útgjaldaþróun en þar segir, með leyfi forseta:

„Framlög vegna endurgreiðslu kostnaðar við kvikmyndagerð eru talin viðhalda stöðu þar sem almennt hallar á konur en karlar eru í miklum meiri hluta þeirra sem starfa við kvikmyndagerð. Með því að draga úr þessum útgjöldum væri hægt að draga úr aukningu kynjahalla.“

Er hæstv. ráðherra sammála þessari fullyrðingu í greinargerð fjármálaáætlunar um að lækkun kvikmyndaendurgreiðslna til íslenskra aðila sé til þess fallin að stuðla að jafnrétti í þessu landi og í greininni? Og ef ekki, hvað í ósköpunum veldur því að svona fullyrðingar eru hreinlega settar fram?