154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:02]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir ágæta yfirferð á málaflokkum sínum. Ég ætla að taka undir með hæstv. ráðherra, við Íslendingar erum sannarlega lánsöm með hversu marga góða og öfluga vísindamenn og frumkvöðla við eigum. Það er vissulega forsenda fyrir verðmætasköpun í þessu þjóðfélagi. Ég fagna áherslum ráðuneytisins í heilbrigðisvísindum. Það er vissulega hlutverk stjórnvalda að styðja við þá nýsköpun sem fram fer á forsendum samfélagslegrar ábyrgðar í lok dags. Sumir þessara aðila hafa stundað nýsköpun í áratugi, aðrir sprottið upp nýlega og margir hafa sömuleiðis náð mögnuðum árangri sem eftir er tekið á heimsvísu.

Það verður ekki annað séð af fjármálaáætlun en að hæstv. ráðherra ætli sér að leggja mikla áherslu á heilbrigðistækni. Því ber að fagna. Eftir því hefur samt verið tekið að starfsumhverfi nýsköpunarfyrirtækja í geiranum þykir ekki mjög skýrt og gagnsætt, þarna þurfa línur að vera miklu skýrari. Er það á ábyrgð háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis sem heldur utan um þessi mál eða er heilbrigðisráðuneytið með málið á sinni könnu?

Ég spyr vegna þess að nýsköpunarfyrirtæki hafa lýst yfir áhyggjum yfir því að boðleiðir séu óskýrar, ekki sé ljóst hvaða aðili ber ábyrgð. Ég varð ekki miklu nær eftir lestur fjármálaáætlunar. Við fyrstu sýn virðist þetta falla undir regnhlíf hæstv. ráðherra. Hvernig hyggst ráðherra tryggja að umhverfi skýrist, ekki síst gagnvart aðilum í heilbrigðistæknigeiranum? Ég vil líka spyrja hvort hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir því að til þess að nýsköpunarfyrirtæki geti unnið af öllu afli þurfa stjórnvöld að stórefla skýrleika er varðar vinnslu upplýsinga í þessum tilgangi, þ.e. að hagnýta upplýsingar sem geta verið viðkvæmar persónuupplýsingar í þágu framþróunar í heilbrigðistækni. Megum við vænta þess að stefnumótun líti dagsins ljós?